Ómskoðanir

Undirbúningur

  • Ef rannsaka á kvið (lifur, gallkerfi, bris eða ósæð) þarf að vera fastandi í 6 klst fyrir rannsóknina.
  • Ekki þarf sérstakan undirbúning að öðru leyti.

Tímalengd og framkvæmd

  • Rannsóknin tekur oftast 5-10 mínútur.

Frábendingar

  • Engar.

Þungun – brjóstagjöf

  • Ómskoðun hefur ekki áhrif á þungun né brjóstargjöf enda er þessi rannsóknaraðferð mikið notuð við skoðun á börnum í móðurkviði.

Tilgangur

  • Kviðarholslíffæri: Aðferðin hentar oftast vel til að skoða líffærin í kviðnum. Algengustu rannsóknirnar eru á lifur, gallkerfi og brisi eða nýrum.
  • Sinar: Myndgæðin oft það góð að innri þræðir sinanna sjást. Ómun hentar best við skoðun á sinum axlarinnar, hnés og hásinum. Þá sést í fyrsta lagi hvort einhverjar rifur séu í sinum og eins hvort aðrar breytingar séu í sinunum sem geta leitt til einkenna. Auk þess sést oft hvort bólga sé aðlægt sinunum.
  • Aðrir mjúkpartar: T.d. vegna vöðvaáverka, blæðinga, afmarkaðra fyrirferða í eða undir húð ofl.
  • Skjaldkirtill: Metin er stærð kirtils og fyrirferðir í honum rannsakaðar, en þær eru mjög algengar í skjaldkirtli. Hægt er að meta blóðflæði í kirtlinum og fyrirferðum hans sem hjálpar við aðgreiningu góðkynja og illkynja breytinga í kirtlinum. Þegar gerð er ómun á skjaldkirtli eru eitlastöðvar á hálsi einnig skoðaðar.
  • Bláæðar í ganglimum: Vegna gruns um blóðsega.
  • Eistu: Til mats á fyrirferðum eða verkjum í eða við eistu.

Tæknin

  • Tæknin byggir á hljóðbylgjum og er einnig nefnd sónar. Svokallaður ómhaus er lagður á húðina. Hann bæði sendir hljóðbylgjur og nemur þær aftur þegar þær hafa endurkastast af undirliggjandi vefjum líkamans. Tölva byggir upp mynd af vefjum þess líkamshluta sem verið er að rannsaka.

Geislun

  • Engin röngengeislun er notuð, aðeins hljóðbylgjur.

Skuggaefni

  • Ekki hefur verið notað skuggaefni við þessar rannsóknir hér á landi.

Niðurstöður

  • Niðurstöður eru sendar tilvísandi lækni. Ef senda á afrit af niðurstöðum til annarra lækna eða meðferðaraðila er það sjálfsagt. Reynt er eftir fremsta megni að senda svör sem fyrst og eru þau yfirleitt send innan 3 tíma. Í einstaka tilfellum getur það þó dregist. Það veltur meðal annars á umfangi rannsóknarinnar og hvort þarf að afla upplýsinga um fyrri rannsóknir sem gerðar hafa verið.