Rannsóknin krefst undirbúnings og er hægt að nálgast upplýsingar hér á pdf formi. Algengt er að fólk komi í rannsóknina í beinu framhaldi af ristilspeglun þegar ekki hefur tekist að spegla allann ristilinn. Í þeim tilfellum þarf ekki séstakann undirbúning nema að vera áfram fastandi.
Rannsóknin sjálf tekur oftast um 30 mínútur. Ristillinn er fylltur af lofti og eru myndir svo teknar í liggjandi stöðu, á baki og kvið. Undirbúningurinn (fasta og ristilúthreinsun) fyrir rannsóknina er óhjákvæmilega krefjandi og eins getur rannsóknin sjálf reynst í sumum tilfellum erfið.
Ef stutt er frá kviðarholsaðgerð er rannsóknin ekki gerð. Annars gilda almennar frábendingar varðandi tölvusneiðmynd.
Ef grunur er um þungun eru þessar rannsóknir almennt ekki gerðar.
Rannsóknin sýnir ristilinn og hvort að ristilpoka, sepa eða aðrar fyrirferðir er að finna. Auk þessa fæst yfirlit yfir kviðarholslíffærin.
Einkenni ss. blóð í hægðum, kviðarónot, hægðartruflanir, sýkingar og ýmis almenn einkenni geta gefið ástæðu til þessarrar rannsóknar.
Rannsóknin er gerð í sneiðmyndatæki, sjá tölvusneiðmynd.
Í umhverfi okkar er alltaf til staðar geislun, bæði frá jörðinni og geimnum/sólinni og er kölluð náttúrleg geislun (1,1mSv/ári)1. Geislavarnir ríkisins hafa umsjón og eftirlit með geislun þmt. tækjum í læknisfræðilegri myndgreiningu.
Með stöðugri tækniþróun krefjast rannsóknir minni geislun og hefur því geislun við hverja myndgreiningarrannsókn minnkað margfalt frá því sem áður var.
Skuggaefni er stundum gefið til þess að fá betri aðgreiningu á innri líffærum auk þess sem skuggaefnis “upphleðsla” í vefjum getur gefið upplýsingar um eðli þeirra.
Niðurstöður eru sendar tilvísandi lækni. Ef senda á afrit af niðurstöðum til annarra lækna eða meðferðaraðila er það sjálfsagt.
Reynt er eftir fremsta megni að senda svör sem fyrst og eru þau yfirleitt send innan 3 tíma. Í einstaka tilfellum getur það þó dregist. Það veltur meðal annars á umfangi rannsóknarinnar og hvort þarf að afla upplýsinga um fyrri rannsóknir sem gerðar hafa verið.