Heildstæð þjónusta

Við veitum heildstæða myndgreiningarþjónustu með öllum helstu myndgreiningaraðferðum.

Aðgengi að fjölbreyttum myndgreiningaraðferðum er lykilatriði til að auka gæði, skilvirkni og hagkvæmni þjónustunnar – enda hefur hver rannsóknaraðferð sína kosti.

Við veljum heppilegustu myndgreiningaraðferðina.

Læknisfræðilegt vandamál er grundvöllur rannsóknarvals.

Einstaklingsbundnir þættir eru hafðir til hliðsjónar.

Brugðist er við myndfundum af óljósum toga og uppvinnsla kláruð með öðrum aðferðum ef þörf krefur.

Rannsóknaraðferðir

Röntgen

Einföld og fljótleg rannsókn sem hentar sérstaklega vel til rannsókna á beinum og lungum.

Enginn sérstakur undirbúningur er fyrir rannsóknina.

Rannsóknin tekur ~10 mín og er framkvæmd af geislafræðingi.

Engin lyf eru gefin við rannsóknina.

Ómun

Einföld og góð rannsókn til mats á yfirborðslægum mjúkvefjum, kviðarholi og æðum.

Venjulega er enginn undirbúningur. Fyrir rannsóknir af kvið (nema nýrum) þarf að fasta 4-6 klst. Fyrir þarf hún að vera ágætlega full.

Rannsóknin tekur ~10 mín og er framkvæmd af lækni.

Engin lyf eru gefin við rannsóknina.

Tölvusneiðmynd

Nákvæm og fljótleg þrívíddar rannsókn til skoðunar á öllum hlutum líkamans, sérstaklega lungum, kviðarholi og beinum.

Yfirleitt enginn undirbúningur. Drekka þarf vatn fyrir sumar rannsóknir af kvið. Ítarlegur undirbúningur er fyrir ristilrannsóknir.

Rannsóknin tekur ~15 mín og er framkvæmd af geislafræðingi.

Við sumar rannsóknir er gefið joð skuggaefni í æð.

Segulómun

Þrívíddar rannsókn með framúrskarandi myndgæðum af mjúkvefjum, mest notuð til mats á stoðkerfi og taugakerfi.

Fyrir rannsóknir af kvið þarf að fasta 4-8 klst. Taka skal verkjalyf ef verkir trufla kyrrlegu. Fjarlægja þarf alla málmhluti s.s. skartgripi og lokka.

Rannsóknin tekur 20-60 mín og er framkvæmd af geislafræðingi.

Við sumar rannsóknir er gefið gadolinium skuggaefni í æð.

Skuggaefnisofnæmi: Reynum að komast hjá skuggaefnisgjöf, en gefum annars fyrirbyggjandi lyf til að draga úr líkum á ofnæmisviðbrögðum. Læknir er ávallt til taks á staðnum.

Innilokunarkennd: Einstaklingar geta haft samband fyrir segulómrannsóknir, komið fyrr og fengið róandi lyf.

Geislavarnir

Röntgen- og tölvusneiðmyndarannsóknir nota jónandi geislun. Geislunin er lítil og hætta á skaða hverfandi, en þó eru gerðar sérstakar ráðstafanir við rannsóknir á viðkvæmum hópum.

Börn: Geislun er takmörkuð með sérsniðnum aðferðum.

Barnshafandi konur: Konur á barneignaraldri eru spurðar hvort þær geti verið barnshafandi. Geislun á fóstur barnshafandi kvenna er takmörkuð eins og mögulegt er.

Skuggaefni

Við sumar tölvusneiðmyndir og segulómanir er gefið skuggaefni í æð til að auka greiningargildið. Skuggaefnið er mjög öruggt, en gerðar eru sérstakar öryggisráðstafanir hjá viðkvæmum hópum.

Nýrnabilun: Við metum nýrnastarfsemi og takmörkum eftir þörfum gjöf joð skuggaefnis við tölvusneiðmyndir.

Sykursýki: Hætta skal töku lyfja sem innihalda metformin (t.d. Glucophage, Janumet, Synjardy) í tvo sólarhringa fyrir og eftir tölvusneiðmyndir með joð skuggaefni.

Ofnæmi: Reynt er að komast hjá skuggaefnisgjöf, en annars gefin fyrirbyggjandi lyf til að draga úr líkum á ofnæmisviðbrögðum. Læknir er ávallt til taks á staðnum þegar skuggaefni er gefið.